Innlent

Hélt að húsið væri að hrynja

Svonefnt Gestshús í vesturbæ Hafnarfjarðar er stórskemmt vegna framkvæmda á vegum bæjarins. Eigandi hússins er afar ósáttur við bæjaryfirvöld. "Það er búið að skemma hjá mér húsið," segir Örn Ægir Óskarsson, verkamaður og íbúi á Vesturgötunni í Hafnarfirði, en sprungur hafa myndast í veggjunum hjá honum eftir að bærinn hóf umfangsmiklar holræsaframkvæmdir í götunni fyrir nokkrum dögum. "Það hefur einhver hreyfing orðið því það duttu niður hjá mér hillur. Ég hljóp út því að ég hélt að húsið væri hreinlega að hrynja." Örn er bæjaryfirvöldum reiður fyrir að hafa ekki kynnt framkvæmdirnar nægilega vel. Hann ræddi í vikunni við Lúðvík Geirsson bæjarstjóra og tók af honum loforð um bætur vegna tjónsins. Örn hefur samt efasemdir um loforðið. "Ég bara treysti þeim ekki þótt ég hafi verið þeirra maður á sínum tíma." Framundan eru svo miklar sprengingar því klöpp er undir götunni. "Maður veit ekki hvað gerist þegar þeir byrja að sprengja," segir Örn og líst greinilega illa á blikuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×