Innlent

Smurstimpli stolið

Starfsmenn smurstöðvar Esso á Geirsgötu tóku eftir því í gærmorgun að einhver hafði stolið stimpli sem þeir nota til að stimpla smurbækur bifreiðaeigenda. "Ég var að nota stimpilinn korter í sex daginn áður, en nú í morgun var hann horfinn og hefur ekki sést síðan," sagði Sigurður Helgi Hermannsson, starfsmaður smurstöðvarinnar þegar Fréttablaðið náði af honum tali í gær. Sigurður segir þetta mjög alvarlegt mál, þar sem einhver geti nú stimplað smurbækur, án þess að smurning hafi átt sér stað. Hann hafi í fimm ár alltaf skilið stimpilinn eftir á sama borði, en hann hafi aldrei horfið fyrr en nú. "Það var mikið að gera og ég var ekki að fylgjast með borðinu, heldur með bílunum," segir Sigurður. Hann segir að við þessu sé ekkert að gera, nema ef einhvers staðar fyndist stimpill merktur Esso, þá sé hægt að skila honum aftur á Geirsgötuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×