Lífið

Hraun á Kaffi Vín í kvöld

Hljómsveitin Hraun mun í kvöld leika lax og synda aftur til gotstöðva sinna á Kaffi Vín, þar sem sveitin mun leika frumsamið efni sitt órafmagnað. Sveitin, sem varð til sem spunaævintýri á Kaffi Vín fyrir tæpum tveimur árum, hefur undanfarin misseri staðið í rannsókna- og þróunarstarfi á svokölluðu Tónleika-Partýi, þar sem dagskrá hefst á tónleikum með frumsömdu efni, en síðan færist áherslan yfir á dansvænna efni og kæruleysið tekur við. Að sögn liðsmanna hefur þetta form tónlistarflutnings vakið mikla lukku, enda fjöldi fólks sem langar til að upplifa tónleika fyrripart kvölds en skemmta sér við meiri gleði seinni partinn. Á fimmtudagskvöldið verður þó þyngri áhersla lögð á lágstemmdari dagskrá og innilegheit, enda er Kaffi Vín innilegur staður sem hentar vel undir órafmagnaðan flutning auk þess sem hljómsveitarmeðlimum er afar hlýtt til staðarins. Hljómsveitin Hraun samanstendur af Jóni Geir Jóhannssyni, trommuleikara, Guðmundi Stefáni Þorvaldssyni gítarleikara, Lofti Sigurði Loftssyni bassaleikara og Svavari Kristinssyni sem leikur á gítar og píanó og syngur. Frumsamin tónlist sveitarinnar er oftast lágstemmd og sorgmædd en ber þó ætíð með sér boðskap vonar. Þá má segja að tilvistarkreppa hljómsveitarmeðlima birtist ljóslifandi í bæði lagavali og frumsömdu efni sveitarinnar. Einnig má bæta því við að hljómsveitin er ætíð opin fyrir gestaleikurum og hafa fjölmargir skemmtilegir gestir stigið á svið með sveitinni og leikið með jafnt í frumsömdu efni sem tökulögum, hvort sem um er að ræða, flautu, fiðlu, píanó eða trompet. Hraun vinna nú að upptökum á sinni fyrstu plötu og er áætlað að hún komi út með vorinu. Þá er sveitin einn af þátttakendum í Tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég Suður, Rokkhátíð Alþýðunnar, sem fram fer á Ísafirði um páskahelgina. Tónleikarnir hefjast kl. 22 í kvöld.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.