Innlent

Karlar selja sig á börum

Karlar sem selja sig hafa gjarnan verið misnotaðir kynferðislega á yngri árum og leiðst síðan út í neyslu. Þeir hafa fjármagnað neysluna með vændi. Íslenskir vændiskarlar eru ekki í skipulögðum klámiðnaði heldur selja sig yfirleitt sjálfir öðrum körlum á börum borgarinnar. "Vændið á sér fyrst og fremst stað hér á landi og mennirnir hafa ekki verið í skipulögðum klámiðnaði heldur bara bjargað sér sjálfir. Þeir hafa selt sig á börum og þá fyrst og fremst öðrum körlum," segir Guðrún Jónsdóttir, félagsráðgjafi og starfskona Stígamóta. Fjöldi vændismanna sem hefur leitað aðstoðar Stígamóta hefur rokkað milli ára. Í fyrra leitaði einn karlmaður aðstoðar vegna vændis en þeir hafa verið mun fleiri á undanförnum árum. Guðrún segir að algengara sé að karlmenn sem leita til Stígamóta vegna vændis hafi gert það eftir að þeir hafa hætt neyslu en konur. Ekki er þó hægt að alhæfa fullkomlega þar sem karlmennirnir eru svo fáir. Karlmennirnir séu í yngri kantinum þegar þeir leiti sér hjálpar og kannski sé þar um kynslóðaskipti að ræða því að eldri karlar hafi örugglega líka upplifað ofbeldi. "Í rannsókn sem Rannsóknir og greining gerðu á kynlífshegðun eða vændi unglinga kom fram að það er meira um vændi meðal ungra karla en maður hefði haldið áður," segir Guðrún. "Við hjá Stígamótum náum miklu betur til karla en við héldum. Það er talið að strákar séu um 20 prósent barna, sem eru misnotuð og það lítur út fyrir að við náum þessum hópi jafnvel og konunum því að fimmtungur þeirra sem koma til okkar vegna sifjaspella eru karlmenn. Við höfum líka boðið upp á sjálfshjálparhóp fyrir karlmenn."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×