Innlent

Mikil spurn eftir folaldakjöti

Eitt þúsund folöld vantar til slátrunar til að anna stóraukinni spurn eftir folaldakjöti. Fordómar gagnvart hrossakjöti hafa minnkað, segja kjötframleiðendur, og erlendis selst kjötið yfirleitt á hærra verði en dilkakjöt. Það þótti ganga glæpi næst að neyta hrossakjöts eftir að kristni var lögtekin hér á landi enda hrossakjötsáti spyrnt saman við heiðni. En nú loks fær hrossakjötið að njóta sannmælis enda herramannsmatur. Neyslan hefur farið sívaxandi síðastliðin ár og nú er svo komið að menn slátra folöldum allan ársins hring í stað þess að gera það bara á haustin. Nýir markaðir erlendis hafa verið numdir og þangað eru flutt á milli 30 og 40 tonn sem er næstum hrein aukning. Erlendur Á. Garðarson, markaðsstjóri Kjötframleiðenda ehf., segir að fólk sé að uppgötva folaldakjötið núna og hann heldur að það seljist allt sem komið á markað. Aðspurður hvort dregið hafi úr fordómum gegn folaldakjöti segir Erlendur að þeir séu nánast horfnir. Hann sjái hrossa- og folaldakjöt á veitingahúsum og þá sé það æ oftar á borðum á heimilum enda sjálfsagt vanmetnasta kjöt á Íslandi í dag. Það eru aðallega fersk fillet og lundir sem hafa slegið í gegn en einnig selst mikið af reyktu og söltuðu kjöti. Björn Sævarsson, deildarstjóri kjötdeildar Nóatúns, segir að sumir séu enn hræddir við hrossakjötið en ef þeir kaupi það einu sinni kaupi þeir það aftur. Aðspurður hvað það sé sem geri kjötið svo gott segir Björn að kjötið sé alltaf mjúkt og erfitt að sjóða það of mikið og þá sé það yfirleitt nýslátrað. Spurður hversu mörg folöld vanti núna segir Erlendur að það skorti 800-1000 folöld fram á sumar. Hann sé hins vegar hræddur um að þau séu ekki til. Erlendur vonast til þess að hrossabændur framleiði í ár enn meira af folaldakjöti svo hægt verði að mæta eftirspurn. Verð á folaldakjöti er nú í sögulegu hámarki en kílóið af folaldalundum er þó rúmlega þúsund krónum ódýrara en kíló af nautalundum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×