Innlent

Margir vilja skipuleggja miðbæinn

Mikill áhugi virðist meðal arkitekta hvaðanæva úr heiminum á að skipuleggja miðbæ Akureyrar því 140 tillögur bárust í hugmyndasamkeppni um það. Keppnin er haldin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og beinist aðallega að fagfólki á sviði byggingarlistar og skipulags þótt þátttaka hafi verið öllum opin. Tillögurnar eiga að sýna nýja og ferska heildarsýn um uppbyggingu og þróun miðbæjarins en allt er þetta unnið í samvinnu við íbúaþing og bæjarstjórn. Úrslit verða tilkynnt eftir rúman mánuð. Þátttaka fór fram úr björtustu vonum, rúmlega 140 tillögur bárust, og voru starfsmenn í óða önn við að bera tillögurnar inn á 1300 fermetra stórt sýningarsvæði í dag svo dómnefndin geti hafið störf. Jóhannes Jónsson, einn aðstandenda keppninnar, segir að menn hefðu lagt upp með það að 30 tillögur væri mjög góður árangur en þá hafi aldrei grunað að þetta yrði niðurstaðan. Ragnar Sverrisson, sem einnig er í hópi skipuleggjenda, segir að spænskar stúlkur hafi komið frá Madríd til Akureyrar í janúar og dvalið þar í þrjá daga til að mynda bæinn og taka þátt í samkeppninni. Þá viti hann af arkitektum frá Ítalíu og Austurríki sem hafi heimsótt bæinn með það að markmiði að vera með. Einnig bárust tillögur frá Kína. Úrslit verða kunngjörð eftir rúman mánuð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×