Innlent

Ráðast gegn klámvæðingunni

Átak er að hefjast gegn klámvæðingunni í landinu. Sigurður Guðmundsson landlæknir hefur rætt við presta, hjúkrunarfræðinga, feminista og umboðsmann barna í samstarf og meiningin er að fá líka fulltrúa ungs fólks með í grasrótarstarf í gegnum Samfés og framhaldsskólana. Unglingsstúlkur verða styrktar til að segja nei. Prestafélagið hefur boðið fram þátttöku sína og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur lýst yfir áhuga en hjúkrunarfræðingar vinna einmitt með unglingum, ungu fólki og konum, til dæmis á bráðamóttöku og Kvennadeildinni. "Við höfum lýst yfir vilja til þess að taka þátt í þeim aðgerðum sem landlæknis er að boða. Okkar félagsmenn eru starfandi mjög víða. Þeir koma til dæmis inn í grunnskólana og að einhverju leyti inn í framhaldsskólana og geta verið með fræðslu þar. Unglingamóttökur eru víða á heilsugæslustöðvum þannig að það getur farið í gang opin umræða um þessi mál þar sem okkar félagsmenn geta verið bæði stuðningsaðilar við unga fólkið og komið með fræðslu og áróður til þeirra," segir Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Guðrún Jónsdóttir, starfskona Stígamóta, sagði á blaðamannafundi í vikunni að óhætt væri að segja sú klámvæðing sem hefði verið að magnast upp í samfélaginu á undanförnum árum hefði rénað. "Þannig höfum við mælanleg dæmi eins og fækkun nektarstaðanna, breytingar á lögreglusamþykktinni - það er augljóst að þetta hefur haft áhrif. En við getum svo sem ekki fullyrt eitt eða neitt," sagði hún. Þá segir Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambandsins, að ekki standi á kennurum í átaki af þessu tagi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×