Innlent

Ríkið hamlar endurmenntun

Ríkið hamlar endurmenntun íslenskra lækna, segir Bjarni Þór Eyvindsson formaður Félags unglækna. Hann er ekki sammála gagnrýni sem fram hefur komið á boðsferðir á vegum lyfjafyrirtækja og segir þær meðal þeirra leiða sem læknar hafi til að endurmennta sig og kynnast nýjungum í læknisfræði. Í grein Sigurðar Guðmundssonar landlæknis í nýútkomnu Læknablaði segir að áhugavert sé að fá fram hvað læknanemum hér á landi finnist um þessi mál. Landlæknir segir enn fremur í greininni, að það sé tilfinning margra að þeim læknum hérlendis fari fjölgandi, sem finnist samskipti lækna og lyfjafyrirtækja vera komin út fyrir allt velsæmi. "Mín persónulega skoðun er sú að þegar þessar ferðir eru í þeim tilgangi að menn eru að sækja sér endurmenntun þá er þetta í lagi, þótt setja megi stærra spurningamerki við einhverja auglýsingaráðstefnu hjá einu fyrirtæki," sagði Bjarni Þór. "Læknisfræðin gengur út á stöðuga öflun nýrra upplýsinga, þótt við nýtum ekki nema hluta af þeim, eftir að hafa metið þær til gagns fyrir okkur og okkar skjólstæðinga. Eins og staðan er í dag hafa menn séð gott tækifæri í þessum ferðum til að ná sér í endurmenntun," bætti hann við og kvaðst telja að sumir hefðu gengið of langt í gagnrýni sinni á boðsferðir, meðal annars með því að tala um "mútuferðir. "Ríkið hefur ekki komið til móts við lækna á Íslandi hvað varðar endurmenntun og símenntun, sem erfitt er að sinna hér vegna smæðar landsins," sagði Bjarni Þór. "Þetta hefur því verið einn af fáum möguleikum sem íslenskir læknar hafa átt til að sækja sér endurmenntun. Eins og kerfið er í dag eigum við rétt á að fara á eina ráðstefnu á ári á kostnað ríkisins samkvæmt kjarasamningum. Samkvæmt lögum er ríkið bundið því að gefa út sérlyfjaskrá fyrir lækna til að við vitum hvaða lyf eru á markaði. Síðasta skrá var gefin út fyrir 2002 og 2003. Ekki er boðið upp á nein námskeið til dæmis á endurmenntunarsviði Háskóla Íslands. Þetta sýnir hvernig ríkið býr að endurmenntun lækna og hefur fremur hamlandi áhrif heldur en hitt."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×