Innlent

Tíu þúsund án heimilislæknis

Um tíu þúsund manns eru án heimilislæknis á höfuðborgarsvæðinu, þar af 6350 Hafnfirðingar. Til stendur að opna tvær heilsugæslustöðvar í ár, aðra í Reykjavík en hina í Hafnarfirði. Að sögn Kristínar Pálsdóttur, hjúkrunarforstjóra á Heilsugæslustöðinni Sólvangi í Hafnarfirði, er talið eðlilegt að um 1500 íbúar séu skráðir á hvern heimilislækni en læknarnir í Hafnarfirði séu margir með mun fleiri á skrá. Ef farið væri eftir þessu viðmiði væru 9300 manns án heimilislæknis en opinbera talan er 6350. Þeir sem ekki eru með skráðan heimilislækni geta farið á Læknavaktina eða mætt utan venjulegs afgreiðslutíma hjá heilsugæslustöðinni en þá kostar heimsóknin 1700 krónur en heimsókn til heimilislæknis kostar 750 krónur. Ný heilsugæslustöð verður opnuð í Hafnarfirði í sumar og þá standa vonir til að fjórir heimilislæknar taki til starfa og þá ættu flestir þeirra sem nú eru án heimilislæknis að komast á skrá. Guðmundur Einarsson, forstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík, segir að samkvæmt úttekt sem gerð hafi verið í nóvember séu á milli þrjú og fjögur þúsund manns án heimilislæknis í Reykjavík, Kópavogi og á Seltjarnarnesi en það segi þó ekki alla söguna um þörfina á fjölgun lækna því oft séu mun fleiri en 1500 íbúar á skrá hjá læknunum. Ný heilsugæslustöð verður opnuð í Voga- og Heimahverfi í haust og mun hún vonandi laga ástandið nokkuð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×