Innlent

Prófar nýtt lyf gegn æðakölkun

Íslensk erfðagreining greindi frá því í dag að hafnar séu klínískar lyfjaprófanir af fyrsta fasa á DG041, nýju lyfi sem fyrirtækið hefur þróað gegn æðakölkun í útlimum, eða svokölluðum útæðasjúkdómi. Mikill skortur er á lyfjameðferð gegn þessum æðasjúkdómi sem hrjáir yfir 20% fólks yfir sjötugu á Vesturlöndum. „Þetta er annað lyfið sem við höfum hafið klínískar lyfjaprófanir á og fyrsta lyfið sem við höfum þróað frá grunni hjá Íslenskri erfðagreiningu. Það er mjög ánægjulegt að sjá að erfðarannsóknir okkar eru að bera ávöxt í þróun nýrra lyfja gegn nokkrum af stærstu heilbrigðisvandamálum heimsins,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Útæðasjúkdómur hrjáir um 10% fullorðinna í vestrænum löndum og yfir 20% þeirra sem komnir eru yfir sjötugt. Sjúkdómurinn lýsir sér í því að útæðar þrengjast vegna fituhrörnunar/kölkunar og blóðstreymi hindrast til handa og fóta. Helti vegna tímabundins sársauka í mjöðmum, kálfum og þjóhnöppum við göngu eða æfingar eru helstu einkenni sjúkdómsins. Takmarkað blóðflæði til vöðva getur valdið sársauka sem hverfur um leið og hreyfingu lýkur. Ef æð stíflast getur það leitt til dreps í útlimum. Engin lyfjameðferð er þekkt sem hefur áhrif á líffræðilegar orsakir sjúkdómsins eða kemur í veg fyrir framþróun hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×