Innlent

Borgin kaupir lítið af Múlalundi

Framkvæmdastjóri Múlalundar er ósáttur við hversu lítið Reykjavíkurborg kaupir af fyrirtækinu sem stytti biðlista á vegum borgarinnar eftir verndaðri vinnu. Hann segir að auk bættra lífsgæða megi spara tugi milljóna króna í lægri lyfjakostnaði með því að þjálfa fólk til vinnu. Það var rífandi stemning í Múlalundi í dag þar sem var opið hús og margir góðir gestir komu, eins og forseti Íslands og félagsmálaráðherra. Þá sá framkvæmdastjóri Happdrættis SÍBS um lögin við vinnuna með því að taka óskalög á harmónikku en happdrættið er bakhjarl Múlalundar. Á Múlalundi eru framleidd bréfabindi og annar skristofubúnaður ásamt fleiru. Þar vinnur fólk sem er fatlað vegna slyss eða sjúkdóma og getur ekki farið á almennan vinnumarkað. Biðlisti er eftir störfum sem telur í dag um 40 manns. Helgi Kristófersson, framkvæmdastjóri Múlalundar, segir reynt að stytta biðlistana en það gangi hægt því um ákveðinn fjölda stöðugilda sé um að ræða.  Helgi segir mörg stórfyrirtæki eiga viðskipti við Múlalund, en þó séu fyrirtæki sem eigi það alls ekki, sem honum finnst einkennilegt því Múlalundur sé samkeppnisfær, bæði í verði og gæðum. Múlalundur hefur verið að stytta biðlista í Reykjavík en Helgi segir Reykjavíkurborg samt ekki kaupa allt hjá þeim. Stöð 2 gerði stutta en óvísindalega rannsókn í ráðhúsinu í dag og þar kom í ljós að lítið sem ekkert var um bréfabindi frá Múlalundi, heldur innflutt. Helgi segir þó fræðsluskrifstofu og skóla kaupa framleiðslu Múlalundar. Þá segir hann vinnustaðinn í raun spara tugi milljóna fyrir samfélagið því lyfjanotkun minnki verulega hjá starfsmönnum við það að vinna, auk þess sem margir fari í nám eða á almennan vinnumarkað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×