Innlent

Öryrki í kjölfar fæðingar

Þrítug móðir er öryrki vegna vanrækslu í kjölfar fæðingar á Landspítalanum fyrir rúmu ári. Hún hefur síðan þjáðst af miklum og stöðugum verkjum en fengið þau svör frá spítalanum að þar sé verkjameðferð að leggjast af vegna fjárskorts. Fæðingardagur dótturinnar Sögu varð í senn einn stærsti gleðidagur í lífi móðurinnar en um leið upphafið að átakanlegri sjúkrasögu. Eftir fæðinguna varð Hekla Guðmundsdóttir fyrir alvarlegum taugaskemmdum út frá þvagblöðru en hún hafði ofþanist. Þegar það uppgötvast daginn eftir voru um fjórir lítrar í henni. Þetta er rakið til vanrækslu þar sem verklagsreglum var ekki fylgt. Afleiðingarnar hafa reynst hrikalegar fyrir Heklu. Stöðugir verkir út frá kviðarholi, sem leitt hafa út í fótleggi og upp eftir hrygg, hafa gert hana ófæra til að sinna flestum verkum. Framtíðardraumar hennar og eiginmannsins, Ómars Hilmarssonar, hafa allir breyst. Óvíst er hvort Hekla geti eignast fleiri börn eins og ætlunin var.  Áður vann hún hjá innflutningsfyrirtæki og við förðun, hafði lært bæði snyrtingu og markaðsfræði og í frístundum stundað líkamsrækt og jóga. Núna getur Hekla ekki einu sinni leyft sér stutta gönguferð. Hún getur aðeins gengið um 50-300 metra á dag. „Ég get ekki farið í bíó eða leikhús því ég á mjög erfitt með að sitja vegna verkja í rófubeini. Ég get ekki sinnt heimilisstörfum ... og síðast en ekki síst get ég ekki sinnt barninu mínu sem ég var náttúrlega búin að hlakka mikið til að vera með,“ segir Hekla og nefnir sem dæmi að hún hafi aldrei farið út að ganga með dóttur sína í barnavagni. Móðir Heklu og vinkona skiptast á um að annast dótturina meðan faðirinn aflar heimilinu tekna. Á meðan leitar hún eftir aðstoð velferðarkerfisins. Hafnarfjarðarbær hefur ítrekað hafnað henni um heimilishjálp og þegar hún leitaði eftir meiri læknishjálp voru svörin þau að sérhæfð verkjameðferð væri að leggjast af vegna fjárskorts. Sjálf þurfa hjónin ungu samtímis að glíma við tekjutap og mikil útgjöld vegna lyfja og sjúkraþjálfunar. Og það er spurt. Hvar er velferðarkerfið þegar á reynir? „Læknisþjónustan og félagslega þjónustan eru í rauninni bara grundvallarmannréttindi af þessum hluta. Það er alveg nóg að geta ekki sinnt hefðbundnum heimilisstörfum og hugasð um barnið sitt, þó svo maður sé ekki að berjast fyrir því að fá ásættanlega heilbrigðisþjónustu,“ segir Hekla. Hekla verður gestur þeirra í Íslandi í dag annað kvöld ásamt Önnu Gyðu Gunnlaugsdóttur, sérfræðingi í hjúkrun verkjasjúklinga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×