Innlent

HÍ setur 1,6 milljarð í hús

Háskóli Íslands ætlar að reisa 8.500 fermetra byggingar fyrir 1,6 milljarða króna. Ingjaldur Hannibalsson, formaður byggingarnefndar Háskólatorgs, segir húsin kölluð Háskólatorg eitt og tvö. Þau eigi að vera tilbúin í desember 2007. Framkvæmdir hefjist í apríl 2006. "Á síðustu fimm árum hefur húsnæði Háskólans aukist um tíu prósent. Á sama tíma hefur nemendum fjölgað um helming. Brýnt er því að byggja við Háskólann," segir Ingjaldur. "Háskólatorg eitt verður á lóðinni milli Aðalbyggingar, íþróttahúss og Lögbergs. Í þeirri byggingu verða skrifstofur Félagsstofnunar stúdenta, stúdentaráðs, Alþjóðaskrifstofu, nemendaskrár og námsráðgjafar. Þar verða líka fimm til sex kennslustofur, tölvuver, bókabúð og veitingasala. Í háskólatorgi tvö sem rís milli Lögbergs og Odda verða aðallega skrifstofur kennara og starfsmanna og lesaðstaða fyrir námsmenn." Eins og greint hefur verið frá velur Háskólinn fimm hópa verktaka og hönnuða sem fá að leggja fram teikningar að húsunum og gera tilboð í verkið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×