Innlent

Verðstríð hjá Bónus og Krónunni

Mjólkurlítrinn fékkst fyrir minna en eina krónu í Bónus í dag og í Krónunni mátti sjá fólk hamstra gos fyrir fermingarveislurnar. Þá hefur sjaldan verið hagkvæmara að neyta grænmetis á Íslandi. Það á eftir að koma í ljós hvort forsvarsmenn Krónunnar sjá eftir að hafa blásið til sóknar á lágvörumarkaði því alvöru stríð er skollið á. Í dag var til að mynda hægt að fá lítra af mjólk á 50 aura, tveggja lítra kók á 50 krónur, litla skyrdollu á 27 krónur, kíló af banönum á 43 krónur og smjörva á 97 krónur. Þetta eru bara örfá dæmi en almennt tala hagsýnu húsmæðurnar um gósentíð þessa dagana því mikið er um tilboð, auk þess sem verð hefur lækkað á flestum nauðsynjavörum. Starfsmenn Bónuss og Krónunnar þeytast á milli samkeppnisverslana til að fylgjast með þróuninni og lækka hjá sér. Fullyrt er að sama góða verðið gildi um allt land. Þá á eftir að sjá hvert þetta stríð leiðir, hvort um sé að ræða stutta orrustu eða langvinna styrjöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×