Innlent

Vændismálum fækkaði hjá Stígamótum

Vændismálum fækkaði hjá Stígamótum í fyrra miðað við árið á undan.Í hittifyrra nýttu 30 einstaklingar sér viðtalsþjónustu Stígamóta vegna vændis en í fyrra voru það 22 einstaklingar. Ný vændismál voru tíu, þar á meðal einn karl, en þau gömlu voru 12. Þetta kom fram á blaðamannafundi hjá Stígamótum í gær. Nokkrar konur voru í reglulegu símasambandi við ráðgjafa Stígamóta vegna vændis en símaviðtöl voru ekki skráð í fyrra og er því ekki vitað nákvæmlega hver fjöldinn er. Þá er vændi falið vandamál og koma upplýsingar um það ekki í ljós fyrr en eftir margra mánaða viðtöl. Skráningar viðtala fara hinsvegar fram eftir fyrstu viðtöl og vantar því upplýsingar um vændi í einhverjum tilvikum. Starfskonur Stígamóta kynntu ársskýrslu sína á blaðamannafundi í gær. Þar kom fram að þær töldu ekki rétt að draga endilega þá ályktun að vændi hefði dregist saman í fyrra þó að þeim hefði fækkað milli ára sem nýttu sér viðtalsþjónustu samtakanna, einstaklingarnir væru of fáir til að draga slíka ályktun. Á fundinum kom fram að fjöldamargar konur frá 16 ára og upp úr kæmu til Stígamóta, stundum kæmu konur vel yfir miðjum aldri sem hefðu orðið fyrir sifjaspellum eða öðru ofbeldi í æsku. Í viðtölunum kæmi síðan stundum smám saman í ljós að þær hefðu gengið í gegnum ýmislegt annað, til dæmis vændi. "Þetta kemur alveg heim og saman við okkar starf. Oftast kemur fólk til okkar vegna sifjaspella eða nauðgunar. Ef það næst gott trúnaðarsamband þá kemur hitt í ljós mánuðum eða árum seinna," segir Guðrún Jónsdóttir, starfskona Stígamóta. Stígamót áttu 15 ára afmæli í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×