Innlent

Holskefla í bílainnflutningi

Bílainnflutningsæði hefur gripið Íslendinga og bíða fleiri hundruð þeirra nú eftir notuðu bílunum sem þeir hafa keypt frá Bandaríkjunum. Allt upp í nokkurra mánaða bið er hjá skipafélögunum eftir flutningi. Innflutningurinn hefur rokið upp úr öllu og eru Flugleiðir sem dæmi hættir að taka við pöntunum um flutning á bílum þaðan. Lágt gengi Bandaríkjadals gagnvar íslensku krónunni veldur því að nú vilja menn kaupa notaða bíla frá Bandaríkjunum í stórum stíl. Samkvæmt upplýsingum sem Stöð 2 hefur aflað sér eru það ekki síst verðmeiri bílar sem menn reyna að krækja í því þannig geti þeir hugsanlega hagnast mest. Í dag var krónan sterkari gagnvart Bandaríkjadal en hún hefur verið í tólf ár. Hjá Eimskipafélaginu fengust þær upplýsingar að yfirbókað væri í næstu 2-3 ferðir frá Bandaríkjunum og nú bíði líklega 200-300 bílar vestra eftir flutningi til Íslands. Staðan er núna þannig á þeim bæ að þeir sem panta flutningspláss fyrir bíla frá Bandaríkjunum fá þau svör að ekki sé víst að hægt verði að afhenda þá fyrr en í maí eða júní. Hjá Atlantsskipum segja menn að þeir hafi aldrei séð annað eins í þessum efnum. Það sé fullfermi í öllum ferðum. 30-40 bílar séu fluttir milli Bandaríkjanna og Íslands í viku hverri en með því að flytja bíla líka með samstarfsfyrirtækjum í Bandaríkjunum til annarra hafna í Evrópu og þaðan til Íslands takist að halda afgreiðslufresti í 4-6 vikum. Samskip beitir svipaðri aðferð, það er að flytja bíla frá Bandaríkjunum til Evrópuhafna með stórum skipum og síðan með sínum eigin stóru skipum þaðan til Íslands en eftirspurnin eftir flutningsplássi hjá Samskipum er mikil. En menn flytja ekki bara bíla með skipum heldur líka flugvélum sem er ekki svo mikið dýrara. Einn til þrír bílar fara með fraktflugi með Flugleiðum frá Bandaríkjunum til Íslands í viku en biðlistinn er orðinn þannig að þar er hætt að taka við pöntunum í augnablikinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×