Sport

Ferrari enn best að mati Renault

Lið Renault í Formúlu 1 kappakstrinum fullyrðir að Ferrari sé enn liðið sem þurfi að leggja af velli þrátt fyrir að Giancarlo Fisichella, annar ökumanna liðsins, hafi farið með sigur af hólmi í fyrstu keppni ársins sem fram fór í Melbourne í Ástralíu um helgina. "Við megum ekki gleyma að ökumenn Ferrari notuðust við bíl frá því á síðasta ári. Þeir eiga eftir að að fá nýja bílinn í hendurnar og þá verða þeir enn sterkari," sagði Bob Bell, hönnunarstjóri Renault. "Við erum ekki haldnir neinum ranghugmyndum - Ferrari er sennilega enn með sterkasta liðið," bætti Bell við. Að sögn Bell rennur Renault blint í sjóinn í Malasíu þar sem næsta keppni fer fram eftir hálfan mánuð. "Í fyrsta lagi þurfum við að nota sömu vélina aftur sem er eitthvað sem við höfum aldrei gert undir þessum kringumstæðum. Veðurfarið ætti að verða ólíkt því sem var í Ástralíu, heitt og rakt. Við vitum ekki hvernig bíllinn mun höndla það þannig að keppnin verður líklega full af óvæntum uppákomum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×