Innlent

Fatlaðar konur beittar misrétti

Forvígismenn Öryrkjabandalags Íslands ætla að setja á laggirnar sérstaka kvennahreyfingu innan bandalagsins og er stofnfundur hennar í kvöld. Markmið hreyfingarinnar er að bæta hag kvenna sem eiga við fötlun að stríða og beita sér fyrir sérstakri úttekt á högum þeirra. Stofndaginn ber upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna fyrir friði og jafnrétti. Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi hjá Öryrkjabandalaginu, segir að hreyfingin eigi sér þó ekki erlenda fyrirmynd heldur sé tilefnið reynslusögur úr íslenska heilbrigðiskerfinu. Eftir 25 ára aldur fjölgar mjög í hópi kvenna sem glíma við fötlun og eru þær í dag mun fleiri en karlar. Að sögn Guðríðar fá þær aðra og verri meðferð þó að þær séu stærri hópur öryrkja. Til marks um það sé að konur voru 98 prósent þeirra sem fengu greiðslur úr ríkissjóði eftir svokallaðar öryrkjadóm Hæstaréttar. Þeim hafi reynst erfiðara en körlum að fá greiningu á öðrum sjúkdómum en þeim sem viðkemur fötlun þeirra. Mörg dæmi séu um að þær hafi verið sendar heim frá lækni með róandi lyf í stað viðeigandi meðferðar. Þá bendir Guðríður á að kynjamisrétti á vinnumarkaði sé áberandi vandamál þar sem konur sem búi við örorku og eru komnar á miðjan aldur eigi erfitt uppdráttar þrátt fyrir fullnægjandi menntun og reynslu. Guðríður segir að greinileg þörf sé á að athuga þessi mál betur til að halda áfram öflugri réttindabaráttu allra öryrkja á Íslandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×