Innlent

Fjölmargar slysagildrur óáreittar

Stjórnendur Reykjavíkurborgar eru svifaseinir og áhugalausir þegar kemur að úrbótum í umferðinni segir umferðarfulltrúi Umferðarstofu og Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Fjölmargar slysagildrur fá að vera óáreittar þrátt fyrir margar ábendingar um umbætur. Kjartan Benediktsson umferðarfulltrúi segist hafa sent frá sér fjölmargar ábendingar um slysagildrur og það sem betur mætti fara í umferðinni frá því hann hóf störf fyrir ári, án þess að vera virtur svars. Hann segir að í engu sveitarfélagi séu jafn dræm viðbrögð og hjá borginni. Þetta sé sameiginleg reynsla allra sem láti sig umferðaröryggi varða, bæði íbúasamtaka, Umferðarstofu og Tryggingafélaga, en þau fái þó einna helst áheyrn. Kjartan segist vera búinn að óska eftir fundum og samstarfi og bjóða fram krafta áðurnefndra stofnana og samtaka en engin viðbrögð fengið. Þar sé hann m.a. að tala um gangbrautarmál, ábendingar um margt sem betur má fara í umferðinni, eftirfylgni af tillögum sem íbúasamtök hafa gert, t.d. við Ægissíðu og á Kjalarnesi, og svo framvegis Bara eitt lítið dæmi er slysagildra við Hamraskóla þar sem ómerkt gangbraut liggur þvert á göngustíg sem stendur í halla þar sem reiðhjól koma gjarnan á mikilli ferð. Á hægri hönd er grindverk sem getur valdið því að bílarnir sjái ekki reiðhjólin og öfugt. Bæði íbúar, strætisvagnabílstjórar og vegfarendur hafa talað um þetta við Kjartan og hann komið því áleiðis til borgarinnar. Viðbrögðin hins vegar eins og ávallt: engin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×