Innlent

Skannar í alla bíla

Persónuvernd hefur ákveðið að skoða lögmæti þess að setja skanna í alla bíla í því skyni að ökumenn greiði eftir notkun samgöngumannvirkja.  Þessari hugmynd er hreyft í nýrri skýrslu um gjaldtöku vegna umferðarmannvirkja sem unnin var fyrir samgönguráðuneytið. Á grundvelli þeirra upplýsinga yrðu svo bifreiðagjöld ákvörðuð. Verði þessir skannar settir í alla bíla verður hægt að fylgjast með akstri hvers og eins, hvar hann keyrir og hvenær. Sigrún Jóhannesdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að þar á bæ hafi menn orðið varir við þessa umræðu og ákveðið hafi verið að taka málið upp hjá stofnuninni og þegar sé búið að bóka það sem mál. Hún segir til dæmis tvennt ólíkt, akstursmagn og akstursleiðir. Sum fyrirtæki hafa látið setja ökurita í bíla sína þannig að hægt er að fylgjast með staðsetningu, tímasetningu og aksturslagi en þess ber að geta að starfsmönnum þeirra fyrirtækja er kunnugt um fyrirkomulagið og ráða sig til viðkomandi fyrirtækis með þá vitneskju. Ýmsir hafa orðið til að spá því hvernig framtíðarþjóðfélagið komi til með að vera og er bók George Orwells, 1984, líklega þekktasta dæmið en í þeirri bók fylgist Stóri bróðir grannt með borgurunum. Það má kannski segja að sá tími sé kominn og fá leyndarmál eftir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×