Innlent

Fischer fær ferðaskilríki

Stuðningsmenn Bobby Fischers fengu vegabréf hans afhent seint í gærkveldi á japönskum tíma. Það er lögfræðingur Fischers, Masako Suzuki, sem hefur ferðaskilríki Fischers undir höndum. Hún mun geyma vegabréfið fyrst um sinn, en framvinda málsins ætti að skýrast betur í dag. Það er skilningur íslenskra stjórnvalda að með því að afhenda lögmanni skákmeistarans vegabréfið, sé lokaskrefið tekið í því að veita Fischer dvalarleyfi. Ákveðið hafi verið að afhenda lögfræðingi hans vegabréfið, og með því sé ekki verið að skipta sér að japönskum innanríkismálum. Eftir því sem japanska blaðið Manichi Daily News hefur eftir John Bosnitch, formanni Frelsum Bobby Fischer nefndarinnar, ætti nú ekkert að standa í vegi fyrir því að skákmeistarinn fái að yfirgefa Japan. Fischer hefur verið í haldi síðan í júlí, þegar hann reyndi að fara um borð í flugvél á leið til Filipseyja. Hann var sakaður um að hafa útrunnið vegabréf. Fyrr um dagin höfðu Sæmundur Pálsson og Guðmundur Þórarinsson fengið að hitta Fischer. Að sögn Sæmundar var það mjög tilfinningarík stund, þegar þeir hittust í fyrsta sinn í þrjátíu ár. Fischer hafi þó ekki litið vel út og greinilega safnað skeggi allan þann tíma sem hann hefur verið í haldi. Guðmundur Þórarinsson sagði í gær að það væri óskiljanlegt af hverju japönsk stjórnvöld hleyptu honum ekki úr haldi, þrátt fyrir að hafa nú gilt vegabréf. Hér heima er einnig náið fylgst með framvindu mála í Japan. Helgi Ólafsson, skákmeistari segir það mjög góð tíðindi ef lögmenn Fischers séu nú komnir með vegabréfið í hendur. Stuðningsmenn hafa óttast að málið hafi verið komið í hnút, þar sem það virtist sem Fischer hafi þurft að fá vegabréfið til að losna úr haldi, en ekki getað losnað úr haldi fyrr en hann fengi vegabréfið. "Það er ljóst að hér heima hefur verið ýtt vel á eftir málinu." segir Helgi. "En ef japanir harðneita að leyfa honum að fara. Þá er málið stopp, sem er það sem ég óttast. Þetta hlýtur að skýrast á næstu dögum, en ég er ekkert of bjartsýnn á að það náist að koma honum heim fyrir afmælisdaginn hans."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×