Innlent

Fangi svipti sig lífi

Gæsluvarðhaldsfangi á Litla-Hrauni svipti sig lífi um helgina. Hann hafði verið í haldi síðan í september og eins og lengd gæsluvarðhaldsins gefur til kynna mátti maðurinn eiga von á langri fangelsisrefsingu. Valtýr Sigurðsson, forstjóri Fangelsismálastofnunar, harmar atburðinn og vottar aðstandendum mannsins samúð sína. Þórarinn Viðar Hjaltason, sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun, segir erfitt að tjá sig um einstök mál vegna trúnaðar við fangana. En hann segir alltaf brugðist við ábendingum ef talið sé að einhver fanganna sé í sjálfsvígshugleiðingum. Nokkur slík tilfelli kom upp á hverju ári og er brugðist við því með viðtölum við sálfræðinga og presta. Þórarinn Viðar segir sjálfsvíg í íslenskum fangelsum fátíð. Hann segir sex til sjö fanga hafa tekið eigið líf í fangelsunum síðustu ár og breytist fjöldinn lítið þó horft sé mörg ár aftur í tímann á meðan aukning er á sjálfsvígum á landsvísu. Fangaverðir læra í Fangavarðaskólanum að þekkja einkenni þeirra sem eru í sjálfsvígshættu og eiga þeir að tilkynna grun um slíkt til sálfræðinga fangelsisins. Engin ábending hafði hins vegar borist í þetta skipti. Þá hafi heldur ekki borist ábending frá samföngum mannsins né ættingjum, að sögn Þórarins Viðars.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×