Innlent

Tafir vegna færslu Hringbrautar

Umferð verður hleypt á nýju Hringbrautina í áföngum í byrjun sumars. Búist er við töluverðum umferðartöfum á svæðinu vegna færslu brautarinnar. Framkvæmdir við færslu Hringbrautarinnar hófust síðasta sumar. Verið er að reisa þrjár göngubrýr yfir Hringbrautina. Ein verður til móts við Tanngarð og tvær munu standa vestan við Njarðargötu til móts við Hljómskálagarðinn. Verið er að undirbúa malbikun og koma lögnum fyrir í götunni. Eiður Haraldsson, framkvæmdastjóri Háfells sem sér um verkið, segir framkvæmdir ganga vel. Þetta sé mikið og stórt verkefni og stórar vélar notaðar í því en verkið sé á áætlun. Eiður segir aðspurður að miklar umferðartafir verði í sumar en þeirra verði strax vart nú í marsmánuði þegar Miklabrautin verði þrengd þar sem hin nýja Hringbraut tengist henni. Snorrabrautin verður lokuð allri umferð um miðjan maí og fram í miðjan september en þar verður meðal annars komið fyrir undirgöngum fyrir gangandi vegfarendur. Hringbrautin mun liggja undir brú sem þegar er komin en gamla Hringbrautin mun halda sér en mjókka og nýtast sem akstursleið að Landspítalanum. Stutt er í að malbikun hinnar nýju Hringbrautar hefjist en umferð verður hleypt á syðri akbrautina í maí og á þá nyðri mánuði síðar. Verklok eru áætluð í október.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×