Innlent

Háskastraujun á Sólrisuhátíð

Háskastraujun er meðal þess sem ísfirskir menntaskólanemar keppa í á Sólrisuhátíð sem nú stendur yfir. Sólrisuhátíðin hefur verið árviss viðburður í 31 ár í Menntaskólanum á Ísafirði. Fyrir utan hefðbundnari keppnisgreinar eins og söngkeppni fór fram keppni í háskastraujun, sem er eins og orðið ber með sér keppni í að strauja spjarir á háskalegum stað. Keppendur völdu sér bergið við gangamunna fyrstu jarðganga sem gerð voru hér á landi, á Arnarnesi, milli Ísafjarðarkaupstaðar og Súðavíkur, til að strauja. Fyllstu varúðarráðstafana var gætt, allir með hjálma og kyrfilega bundnir í vaði. Hvorki fer sögum af hver bar sigur úr býtum né heldur hversu slétt plöggin voru eftir háskastraujunina enda erfitt að koma járnunum í samband.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×