Innlent

Flugvöllurinn áfram í áratugi?

Forsenda nýrrar samgöngumiðstöðvar á Reykjavíkurflugvelli er að minnsta kosti tuttugu og fimm ára rekstrartími, samkvæmt niðurstöðu sameiginlegrar nefndar ríkis og borgar. Gert er ráð fyrir að yfir milljón farþega fari um miðstöðina á ári eftir tíu ár. Núverandi flugstöð á Reykjavíkurflugvelli er talin óviðunandi að mati nefndarinnar en skýrsla hennar verður kynnt ríkisstjórn á morgun. Sama er sagt um aðstöðu langferðabifreiða á Umferðarmiðstöðinni, auk þess sem gert sé ráð fyrir að lóð BSÍ verði í framtíðinni nýtt til annarrar starfsemi. Nýrri samgöngumiðstöð er ætlað að þjóna hlutverki þeirra beggja, auk þess að þjónusta rútur sem flytja flugfarþega milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Í skýrslunni eru gefnir tveir möguleikar á staðsetningu: annars vegar svokallaður norðurkostur, norðan við Hótel Loftleiðir, en hins vegar svokallaður hótelkostur, sem gerir ráð fyrir að hún verði í hluta hótelsins. Gert er ráð fyrir að samhliða verði lögð ný gata frá Hringbraut, „Hlíðarfótur“, sem tengi miðstöðina við gatnakerfi borgarinnar. Svo langt er verkefnið komið að búið er að vinna grunnmyndir og mismunandi útlitsteikningar, sem fylgja skýrslunni, og meta kostnað við framkvæmdina. Hann er talinn liggja á bilinu 1.500 til 1.800 miljónir króna, eftir því hvaða kostur verði valinn. Samgönguráðherra hefur lýst því yfir að hann vonist til að framkvæmdir geti hafist sem fyrst og borgarstjóri vonast til að hún geti verið tilbúin innan þriggja ára. Spár gera ráð fyrir að árið 2016 muni 1,1 milljón farþega fara um miðstöðina. Flugstöðvarhlutanum er ekki aðeins ætlað að þjóna innanlandsflugi heldur einnig millilandaflugi, þó í litlum mæli og einkum Grænlands- og Færeyjaflugi. Lagt er til að bæði uppbygging og rekstur samgöngumiðstöðvarinnar verði boðinn út sem einkaframkvæmd en gert er ráð fyrir að ríkið þurfi samt sem áður að leggja fram árlega milli 50 og 100 milljónir króna í stofn- og rekstrarframlag. Í skýrslunni kemur fram að að forsenda einkaframkvæmdar sé a.m.k. 25 ára samningstími. Því vaknar sú spurning hvort borgaryfirvöld séu með þessari stefnumörkun í raun búin að fallast á að í Vatnsmýrinni verði rekið innanlandsflug í aldarfjórðung hið minnsta, eftir að samgöngumiðstöð er risin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×