Lífið

Tregablandið stuðlag

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, lagahöfundur og upptökustjóri, er að leggja lokahönd á lagið sem verður framlag Íslands til söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í ár. Selma Björnsdóttir mun flytja lagið en það er tregablandið ástarlag. Heiti lagsins hefur ekki enn verið gefið upp. "Ég og Vignir Snær úr Írafári fórum upp í sveit með kassagítara og kassettutæki og hömruðum okkur saman. Lagið er byggt á hugmynd Vignis sem við unnum síðan út frá," útskýrir Þorvaldur Bjarni um tilurð lagsins. Þorvaldur Bjarni segir að lagið sé allt öðruvísi en All out of luck sem Selma söng í Ísrael árið 1999, þegar hún náði öðru sæti í Evróvision-keppninni. Hann lýsir nýja laginu sem mellonkollísku eða tregablöndnu stuðlagi. "Þetta er allt öðruvísi lag en All out of luck. Það er öðruvísi melódía og ekki eins bjart -- það kemur tregi á móti stuði." Þorvaldur Bjarni vill ekki meina að klassíska Evróvisionshækkun verði að finna í nýja laginu. "Það er eiginlega plathækkun í laginu. Það kemur spilakafli í miðju lagi og hann hækkar tóntegund lagsins. En það verður ekki svona kórus sem hækkar í lokin eins og oft áður." Lagið verður sungið á ensku en textann við það vann Selma í samstarfi við Lindu Thompson, þekktan bandarískan texta- og lagahöfund sem hefur meðal annars samið lög fyrir heimsfræga flytjendur á borð við Celine Dion og Toni Braxton. "Textinn er með þessum trega sem er í laginu og fjallar um endurgoldna eða óendurgoldna ást," segir Þorvaldur Bjarni, sem er á leið til London til að fullvinna lagið með upptökustjóranum Ash Howes. Sjálft lagið verður frumflutt í þættinum Laugardagskvöld með Gísla Marteini þann 19. mars en sjálf Evróvision-keppnin fer fram í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, þann 19. maí.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.