Erlent

Árásin í Tel Aviv verk Sýrlendinga

Ísraelar fullyrða að Sýrlendingar hafi gefið fyrirskipun um hryðjuverkaárás í Tel Aviv um helgina. Fimm manns létu lífið og friðarferlið er í hættu. Það standa öll spjót á Sýrlendingum. Bandaríkjamenn saka þá um að senda hryðjuverkamenn yfir landamærin til Íraks, Líbanar segja að þeir hafi myrt fyrrverandi forsætisráðherra sinn, Rafik Hariri, og nú segja Ísraelar að Sýrlendingar beri ábyrgð á sprengjuárásinni sem gerð var í Tel Aviv um síðustu helgi. Árásin varð til þess að Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, varaði Palestínumenn við því að friðarferlið væri í hættu tækist þeim ekki að hafa hemil á hryðjuverkamönnum. Árásin kom á óvart því helstu samtök hryðjuverkamanna í Ísrael höfðu lýst því yfir að þau myndu virða vopnhléið sem þeir Mahmoud Abbas og Ariel Sharon tilkynntu um í Egyptalandi á dögunum. Ísraelar segjast nú hafa upplýsingar um að ákvörðun um ódæðið hafi verið tekin utan landamæra Ísraels. Shimon Peres, aðstoðarforsætisráðherra Ísraels, segir að samkvæmt upplýsingum Ísraela hafi skipanir um árásina í Tel Aviv komið frá Damaskus í Sýrlandi. Stjórnvöld í Ísrael telji þetta ekki réttan grundvöll fyrir friði. Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, ber sig illa undan þessum ásökunum. Hann segir Bandaríkjamenn nú farna að beita Sýrland sams konar þrýstingi og þeir beittu Írak áður en þeir gerðu árás inn í landið árið 2003. Við þetta má bæta að ríkisstjórn Líbanons sagði öll af sér í dag eftir fjöldamótmæli vegna morðsins á Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra. Ríkisstjórnin þótti mjög vinsamleg Sýrlendingum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×