Erlent

Súnnítar sagðir á bak við árásina

Að minnsta kosti eitt hundrað og fimmtán eru nú látnir eftir sprengjutilræði í Írak í morgun. Mörgum í viðbót er ekki hugað líf. Talið er að uppreisnarmenn úr röðum súnníta beri ábyrgð á árásinni. Tilræðið í morgun er mannskæðasta einstaka árás sem gerð hefur verið í Írak síðan Saddam Hussein var steypt af stóli. Bíl var ekið að mannfjölda sem var að bíða eftir heilbrigðisvottorði til þess að geta sótt um starf hjá hinu opinbera. Bíllinn var svo sprengdur í loft upp. Sjónarvottar segja að aðkoman hafi verið skelfileg. Lík og líkamshlutar þeyttust langar leiðir og sært fólk lág veinandi í götunni og vantaði útlimi á marga. Eldar kviknuðu í sölubásum á útimarkaði í grenndinni. Talið er nokkuð víst að öfgamenn úr röðum súnníta beri ábyrgð á ódæðinu. Súnnímúslímar gera allt sem þeir geta til að hindra að friður og jafnvægi komist á í Írak. Undir stjórn Saddams Husseins réðu þeir lögum og lofum í landinu og þótt þeir séu í miklum minnihluta voru þeir í aðstöðu til að kúga sjíta grimmilega sem eru í meirihluta í landinu. Þeir reyna því að styrkja stöðu sína með hryðjuverkum og myrða einkum óbreytta borgara eins og þeir gerðu í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×