Innlent

Nítján sagt upp hjá varnarliðinu

Nítján starfsmönnum flotastöðvar varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hafa verið sendar uppsagnir sem taka gildi 1. mars næstkomandi. Vernharð Guðnason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, segir ákveðinn grun vera um að þarna sé óeðlilega staðið að vali á einstaklingum við uppsagnir. Einn þeirra sem missir vinnuna segir starfsemina á vellinum vera sökkvandi skip og að herinn sé í raun farinn. Hann segir að fjölskyldumenn með langa starfsreynslu og öll tilskilin réttindi séu látnir fara, en ungir menn með litla reynslu fái að vera áfram. "Þetta snýst ekki bara um uppsagnir starfsmanna, heldur um lögvarin starfsréttindi heillar stéttar," segir Vernharður. Hann segir að vinnubrögð sem þessi væru hvergi annars staðar liðin og að þeir muni leita réttar síns. Málið muni fara þá leið sem þurfi til að þeir nái sínu fram. Í yfirlýsingu frá Upplýsingastofnun varnarliðsins segir að íslenskum stjórnvöldum og fulltrúum stéttarfélaga hafi verið tilkynnt um fyrirhugaðar breytingar í starfsliði varnarstöðvarinnar. Þar segir að umræddar ráðstafanir muni hvorki hafa áhrif á skyldur flotastöðvarinnar í tengslum við rekstur Keflavíkurflugvallar né þjónustu við varnarliðið. Þá snerti þær ekki varnarsamning Íslands og Bandaríkjamanna, umræður um framtíð varnarliðsins eða endurskoðun á viðbúnaði Bandaríkjahers á heimsvísu. Varnarliðið neitaði að ræða opinberlega einstök atriði varðandi uppsagnir starfsmannanna fyrr en eftir að þær verða mótteknar um næstu mánaðamót. Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, sagði varnarliðið ekki hafa mótaðar reglur um uppsagnir í samræmi við starfsaldur. Ákvarðanir væru í höndum næstu yfirmanna og þeir færu eftir hlutlægu mati á frammistöðu starfsmanna sinna. "Þetta eru ömurlegar fréttir fyrir okkar litla byggðarlag og ég er fullur samúðar. Þetta snertir ótrúlega marga".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×