Innlent

Actavis með 93% af markaðinum

Actavis ræður 93 prósentum af samheitalyfjamarkaðinum á Íslandi. Ríkið er stærsti viðskiptavinurinn en Tryggingastofnun ríkisins telur að ekki sé teljandi verðmunur á samheitalyfjum og frumlyfjum á Íslandi. Deildarstjóri lyfjamála þar segir fulla ástæðu fyrir Samkeppnistofnun að kanna málið. Blóðþrýstingslyfið enapril frá Actavis, sem kostar 450 íslenskar krónur út úr dönsku apóteki, kostar 3350 krónur út úr apóteki á Íslandi. Þetta er aðeins eitt dæmi um þann mikla verðmun sem er á framleiðslu fyrirtækisins milli landanna. 93 prósent allra samheitalyfja sem eru seld hér á landi koma frá Actavis. Það gerir um sautján prósent af öllum lyfjum, frumlyfjum og samheitalyfjum sem eru seld á Íslandi. Actavis framleiðir um eitt hundrað lyf fyrir Íslandsmarkað og veltir hér um 1,5 milljarði á ári. Þar af er ríkið stærsti kaupandinn en Tryggingastofnun ríkisins greiddi um 700 milljónir vegna lyfja frá Actavis. Alls var lyfjakostnaður stofnunarinnar hins vegar 6,4 milljarðar sem sýnir að samheitalyf eru mjög lítið notuð á Íslandi. Inga J. Arnarsson, deildarstjóri lyfjadeildar Tryggingastofnunar, segir að það virðist ekki vera virk samkeppni á íslenska markaðnum og það sé einstakt fyrir íslenska markaðinn hversu lítill munur sé á verði á frumlyfja og samheitalyfja. Erlendis sé oftar en ekki mikill verðmunur en af einhverjum ástæðum virðist samkeppnin ekki vera fyrir hendi hér. Full ástæða væri fyrir Samkeppnisyfirvöld að kanna þetta mál. Actavis framleiðir um fimmtán samheitalyf fyrir danskan markað. Þar eru lyfin seld fyrir margfalt minna verð en hér. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja að skýringarnar felist í of harðri samkeppni í Danmörku og smæð markaðarins hér á landi. Þá valdi lítið upplag auknum kostnaði. En frá sjónarhóli hins íslenska viðskiptavinar má kannski frekar spyrja sig hvort samkeppnin sé of lítil hér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×