Innlent

Ríkissaksóknari kominn með málið

Lögreglan hefur lokið rannsókn sinni á orsökum brunans sem varð í einbýlishúsi á Sauðárkróki í byrjun desember. Maður um tvítugt lést í brunanum. Björn Mikaelsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki, segir að málsgögn hafi verið send ríkissaksóknara. Það ætti að verða ljóst eftir fáeinar vikur hvort ákært verður í málinu. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er vitað að eldurinn kviknaði af mannavöldum en hins vegar eru engin sönnunargögn í málinu sem benda til þess að um íkveikju hafi verið að ræða. Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík tók sýni á vettvangi. Niðurstöður úr sýnatökunni benda ekki til þess að eldhvetjandi efni hafi verið í stofunni þar sem eldsupptök voru. Nokkur ungmenni voru í húsinu nóttina og morguninn sem bruninn varð. Vitað er að töluvert var reykt í húsinu um morguninn og eru líkur á því að eldurinn hafi kviknað út frá sígarettuglóð. Ungur maður, sem slapp ómeiddur úr brunanum, fékk réttarstöðu grunaðs manns skömmu eftir að bruninn varð. Björn segir að staða hans sé óbreytt og breytist ekki fyrr en eftir að ríkissaksóknari hafi lokið sinni vinnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×