Lífið

Sjón hreppir hnossið í ár

Mikið var um dýrðir í bókaforlaginu Bjarti á Bræðraborgarstíg í gær eftir að tilkynnt var í gær að Sigurjón Birgir Sigurðsson, jafnan nefndur Sjón, hlyti bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár. Efnt var til blaðamannafundar þar sem boðið var upp á kökur og kampavín. Blómasendingar bárust og heillaóskum rigndi yfir skáldið og útgefendurna. "Þetta er mér mikill heiður og ánægja," sagði Sjón, brosandi út að eyrum. Hann hlýtur verðlaunin fyrir skáldsögu sína Skugga-Baldur, sem Bjartur gaf út haustið 2003. Verðlaunanefnd Norðurlandaráðs segir í fréttatilkynningu sinni að í Skugga-Baldri þræði Sjón af mikilli vandvirkni einstigið milli ljóðs og prósa. Í sögunni vefi hann saman minni úr íslenskum þjóðsögum, rómantíska sagnahefð og heillandi sögu þar sem siðfræðilegar spurningar nútímans skjóti upp kollinum. "Mér skilst að dómnefndin hafi hrifist af þessu samblandi af gömlum tíma og algerlega nýjum aðferðum, sem kenna má við póstmódernisma, um leið og fjallað er um siðferðilegar spurningar sem brenna á samtímanum. Þar fyrir utan er þetta afskaplega lítil bók og einhvern veginn heil og það virðist ganga upp. Hún er ekkert að þykjast vera neitt stærri en hún er, en heldur ekki minni." Sjón tók rútuna í bæinn í gær frá Eyrarbakka, þar sem hann sat við skriftir þegar tilkynningin barst frá verðlaunanefnd Norðurlandaráðs. Sjón á lítið hús á Eyrarbaka og vinnur þar nú að næstu bók sinni. "Þar skrifaði ég líka þessa bók og mér fannst við hæfi að vera staddur þar þegar þetta yrði tilkynnt, á fæðingarstað bókarinnar." Skugga-Baldur er fimmta skáldsaga Sjóns. Áður hafa fimm Íslendingar hlotið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Þau eru Ólafur Jóhann Sigurðsson, sem hlaut verðlaunin árið 1976, Snorri Hjartarson árið 1981, Thor Vilhjálmsson 1988, Fríða Á. Sigurðardóttir 1992 og Einar Már Guðmundsson árið 1995. Sjón segist engan veginn hafa átt von á því að hljóta verðlaunin, enda hafi margar góðar bækur verið tilnefndar í ár. "Ég þóttist nú vera kominn í góðan félagsskap með tilnefningunni, en nú er félagsskapurinn orðinn enn betri. Meðal annars var Stormur tilnefndur eftir minn góða vin Einar Kárason, sem sýndi hve góðan mann hann hefur að geyma þegar hann hringdi í mig fyrstur manna og óskaði mér til hamingju." Verðlaunin nema 350 þúsund dönskum krónum, um það bil 3,8 milljónum íslenskra króna, og verða þau afhent í Reykjavík þann 26. október í haust, strax að loknum fundi Norðurlandaráðs.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.