Lífið

Brúðkaup að verða að skrípaleik?

Elísabet, Englandsdrottning, ætlar ekki að mæta í brúðkaup Karls Bretaprins og Camillu Parker Bowles. Þetta konunglega brúðkaup virðist vera að breytast í einn allsherjar skrípaleik með tilheyrandi vandræðagangi fyrir hjónaleysin. Tilkynning um að drottningin myndi ekki láta svo lítið að mæta í brúðkaupið barst frá Buckingham-höll í gærkvöldi og hefur sett þessi konunglegu brúðkaupsmál í algjört uppnám. Talsmenn drottningar harðneita því að með því að mæta ekki sýni hún hjónaleysunum einhverja lítilsvirðingu, hún sé þvert á móti aðeins að virða óskir þeirra um að athöfnin verði fábrotin og láti lítið yfir sér. Fréttaskýrendur segja hins vegar ljóst að þetta sé opinber niðurlæging fyrir Karl og Camillu enda hafi hafi það ekki gerst í 142 ár að breskur konungur eða drottning hafi misst af brúðkaupi barna sinna. En þetta er ekki eini vandræðagangurinn varðandi þetta brúðkaup. Í upphafi átti að gefa hjónaleysin saman í Windsor-kastala en nú er búið að færa brúðkaupið og þau verða gefin saman á skrifstofu sýslumanns í staðinn en hljóta kirkjulega blessun í veislu eftir athöfnina. Drottningin mun reyndar mæta í þá veislu og hún ætlar að borga fyrir herlegheitin. Þá hafa sérfræðingar í stjórnskipunarrétti stigið á stokk og efast um að brúðkaup ríkisarfa sem fram fer hjá sýslumanni standist stjórnskipunarlög. Búist er við yfirlýsingu um lögmæti þessa brúðkaups síðar í dag. Að öllu sögðu er ljóst að þetta brúðkaupið er að breytast í sneypulegt almannatengslaslys fyrir bresku konungsfjölskylduna sem virðist í seinni tíð ekki geta gert nokkurn skapaðan hlut án þess að úr verði hneykslismál.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.