Innlent

Símakostnaður hefur þrefaldast

Útgjöld íslenskra heimila vegna síma- og póstkostnaðar hækkuðu um 70 prósent á árunum 1995 til 2002, eftir að farsímavæðing landsins fór af stað. Í rannsókn á útgjöldum heimilanna sem Hagstofa Íslands gerði árið 1995 kom í ljós að heildarútgjöld vegna póst- og símakostnaðar yfir árið var 32.376 þúsund krónur á ári, um 2.700 krónur á mánuði. Sjö árum seinna var kostnaðurinn hlaupinn upp í 108.048 krónur, um níu þúsund krónur á mánuði. Kostnaðaraukinn skrifast að mestu leyti á tilkomu GSM-símans, internetsins og tengdrar þjónustu. Árið 1994 voru GSM-áskriftir rétt rúmlega tvö þúsund. Síðan þá hefur fjöldi GSM-áskrifta stigmagnast og árið 2003 voru þær orðnar rúmlega 256 þúsund manns, þannig að á aðeins áratug höfðu rúm 80 prósent landsmanna eignast GSM-síma. Rétt er að taka fram að óvíst er hvort öll númerin hafi verið í notkun. Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir að hjá símanum séu um 175 þúsund símanúmer í notkun. Bjarki Jóhannesson, deildarstjóri hjá Og Vodafone, segir um 80 þúsund virk símanúmer á skrá hjá fyrirtækinu. Heildartala virkra GSM-númera er því um 255 þúsund. Heimasímum hefur aftur á móti fækkað. Árið 2000 voru heimasímar á 95 prósentum heimila í landinu en árið 2002 voru aðeins 89 prósent heimila með heimasíma. Sem hlutfall af heildarútgjöldum heimila hefur póst- og símakostnaður rúmlega tvöfaldast. Árið 1995 var hann 1,4 prósent af heildarútgjöldum en árið 2002 hafði hlutfallið hækkað í 3,1 prósent. Ásta S. Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, segist verða greinilega vör við þessa þróun hjá þeim sem leita til stofnunarinnar. "Símareikningurinn er að verða sífellt stærri þáttur í útgjöldum heimilanna. Það þarf að fræða fólk meira um gjaldskrár símafyrirtækja og gera það meðvitaðra um farsímanotkunina, því hún er mun dýrari en notkun heimilissíma."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×