Lífið

Forsala á Maiden í mars

Forsala miða á tónleika rokksveitarinnar Iron Maiden í Egilshöll hefst sunnudaginn 6. mars. Iron Maiden kemur með gífurlega mikið af sviðsbúnaði fyrir tónleikana og má því búast við miklu sjónarspili. Söngvarinn Bruce Dickinson kemur einnig með 200 aðdáendur frá Bretlandi í einkaflugvél sem hann flýgur sjálfur til og frá landinu. Miðar á tónleika Maiden seldust upp á mettíma á Norðurlöndunum fyrir skömmu og því er vitað að töluvert verði af aðdáendum sem koma þaðan til að sjá sveitina í Egilshöll. Iron Maiden er fyrir löngu orðin sígild hljómsveit og í skoðannakönnun rokktímaritsins Kerrang! eru tvær plötur sveitarinnar á topp 10. Number of the Beast er í öðru sæti og Iron Maiden í því níunda. Þar sem þessi tónleikaferð byggist mikið á þeirra eldri og þekktari lögum má búast við að sveitin muni spila mörg lög af þessum tveimur plötum. Forsalan á tónleikana, sem verða þann 7. júní, fer fram í Íslandsbanka í Kringlunni og Smáralind og á www.farfuglinn.is. Einnig verður miðasala í Pennanum á Akranesi, Vestmannaeyjum, Dagsljósi á Akureyri og Hljóðhúsinu á Selfossi. Verða einungis seldir A-miðar þann daginn á öllum útsölustöðum. Mánudaginn 7. mars verður svo hægt að nálgast bæði A- og B-miða á ofangreindum stöðum. Verð á A-miðum er 7.500 krónur og B-miðum 6.500.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.