Erlent

Flugvél með fallhlíf

Öruggasta einkaflugvél í heimi rennur í stríðum straumi út úr verksmiðjunni í Minnesota í Bandaríkjunum. Íslendingurinn Snorri Guðmundsson á þátt í hönnun vélarinnar sem er framleidd með fallhlíf fyrir alla vélina.  Flugvélin er af gerðinni Cirrus SR20. Hún er framleidd í Minnesota og hefur vakið athygli víða um heim fyrir hönnun en vélin er búin tækjum sem sem líkja má við stjórntæki þotu. Íslendingurinn Snorri Guðmundsson átti þátt í að hanna þessa vél og hún nýtur slíkra vinsælda að nú renna þrjár vélar á dag út úr verksmiðjunni. Egill Guðmundsson vinnur við að ferja þessar vélar frá Bandaríkjunum til Evrópu. Hann millilenti hér í vikunni á leið sinni til Hollands en ferðalagið er langt, 7 til 9 klukkustundir hvor leggur. Egill er í flotgalla allan tímann sem hann er á lofti en þrátt fyrir langt og einmanalegt flug er nóg að gera á leiðinni. Egill segir að hann þurfi m.a. að tilkynna um staðsetningu og gæta þess að deila eldsneyti á milli tanka og það sé ærin vinna. Í þessari vél er nýstárlegur öryggisbúnaður en þetta er fyrsta flugvélin sem er framleidd með fallhlíf, ekki bara fyrir flugmanninn heldur alla vélina. Fallhlífin er geymd fyrir aftan farangurshólfið. Egill segir að þegar togað sé í handfang inni í flugmannsklefanum skjótist fallhlífin út og rífi skel utan af skrokknum þar sem bönd fallhlífarinnar séu fest inn í. Fallhlífin hangi í einu bandi að aftan og tveimur að framan og vélin lendi á jörðinni á u.þ.b. 15 hnúta hraða í stað 60-70 hnúta hraða hjá öðrum vélum, en við það rostist menn. Vélin teljist öruggasta einkavélin í dag. Egill segir að hann hafi ekki enn þurft að grípa til fallhlífarinnar en það sé gott að vita af henni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×