Erlent

50 létust í sprengjuárásum

Að minnsta kosti 50 manns létust í sprengjuárásum uppreisnarmanna í Írak í gær þegar Ashoura, trúarhátíð sjía-múslíma, náði hámarki. Meira en hundrað manns særðust í árásunum. Talið er að súnní-múslímar hafi skipulagt árásirnar og eru flestir hinna látnu sjía-múslímar. Í fyrradag létust 36 í árásum uppreisnarmanna. Þetta er annað árið í röð þar sem umfangsmiklar árásir eru gerðar á meðan Ashoura-trúarhátíðin stendur yfir. Í fyrra lést 181. Flestar árásirnar í gær voru gerðar í hverfum sjía-múslíma í Bagdad en einnig voru árásir annars staðar í landinu. Sjía-múslímar unnu stórsigur í kosningunum í lok janúar og er óttast nú sé að myndast gjá milli þeirra og súnní-múslíma sem sniðgengu kosningarnar að miklu leyti. "Árásir hryðjuverkamanna, sem kalla sig múslíma, á moskur og helgidóma sjía-múslíma eru ekkert annað en tilraun til að koma af stað trúarlegu stríði," segir Mouwaffaq al-Rubaie, þjóðaröryggisráðgjafi Íraka. "Írakar munu ekki leyfa því að gerast." Al-Rubaie segir hryðjuverkaleiðtogann Abu Musab al-Zarqawi og fyrrverandi fulltrúa Baath stjórnmálaflokksins standa á bak við árásirnar. Hillary Clinton, öldungadeildarþingmaður og eiginkona Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseta, kom til Bagdad í gær ásamt bandarískri sendinefnd. "Sú staðreynd að uppreisnarmenn skuli gera árásir meðan á trúarhátíð stendur yfir og fólk biður er fyrir mér merki um örvæntingu," sagði Hillary Clinton. "Uppreisnarmönnunum er að mistakast ætlunarverk sitt sem er að skapa ringulreið og borgarastyrjöld." Ashoura-trúarhátíðin er haldin til að minnast andláts Imam Hussein, barnabarns Múhameðs spámanns. Hussein var myrtur á sjöundu öld og er grafinn við gulli sleginn helgidóm í borginni Karbala.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×