Erlent

SÞ rannsakar morðið á Hariri

Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, ætlar að senda hóp sérfræðinga til Líbanons til að rannsaka morðið á Rafik Hariri, fyrrum forsætisráðherra landsins. Annan tók ákvörðunina eftir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna óskaði eftir upplýsingum um morðið, ástæður þess og hugsanlegar afleiðingar. Írinn Peter Fitzgerald mun leiða hóp sérfræðinganna sem munu fara til Beirút á næstu dögum. Sameinuðu þjóðirnar senda hópinn til Líbanons þrátt fyrir að Suleiman Franjieh, innanríkisráðherra landsins, hafi hafnað allri utanaðkomandi aðstoð við rannsóknina. Menn andsnúnir ítökum Sýrlendinga í Líbanon hvöttu í fyrradag til friðsamlegrar uppreisnar gegn Sýrlendingum en þeir eru grunaðir um morðið á Hariri. Franjieh segir að stjórnvöld muni ekki umbera neins konar ófrið og hótar að siga hernum á mótmælendur. Leiðtogi Hizbollah samtakanna segir hættu á borgarastyrjöld komi til uppreisnar gegn Sýrlendingum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×