Erlent

Alda sjálfsmorðsárása á hátíð

Alda sjálfsmorðsárása hélt áfram í Írak í dag um leið og ein mikilvægasta trúarhátíð sjíta náði hámarki. Tilraunir til að forðast blóðbað á hátíðinni hafa mistekist. Múslímar í Írak skiptast í meginhópa, súnníta og sjíta. Sjítar eru fjölmennari en hafa ætíð þurft að lúta stjórn súnníta í Írak sem höfðu töglin og hagldirnar undir stjórn Saddams Husseins. Sjítar unnu hins vegar sigur í nýafstöðnum kosningum og fengu meirihluta atkvæða. Súnnímúslimar sátu að mestu heima og fengu því nær ekkert fylgi í kosningunum. Nú stendur yfir ein mikilvægasta trúarhátíð sjítamúslima, Ashura, sem náði hápunkti sínum í dag. Um leið voru bornir til grafar þeir sjítamúslimar sem fórust í sjálfsmorðsárásum á föstudag. Á þessari hátíð í fyrra létu tæplega 200 sjítar lífið í árásum öfgamanna súnnímúslíma. Öfgahópar súnníta réðu að minnsta kosti 35 sjíta af dögum á fimmtudag og 27 í gær og blóðbaðið hélt áfram í dag. Á þriðja tug hefur farist í nokkrum sjálfsmorðsárásum. Enn sem komið er vilja menn ekki kalla þetta trúarbragðastríð en árásirnar bera glöggt vitni um þá erfiðleika sem blasa við þjóðinni á komandi mánuðum og árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×