Erlent

Rússar styðja Írani

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, segist sannfærður um að Íranir séu ekki að reyna að þróa kjarnorkuvopn. Eftir fund í Moskvu með Hassan Rowhani, yfirmanni kjarnorkumála Írana, sagði Pútín að rússnesk stjórnvöld myndu áfram vinna með Írönum og hjálpa að ljúka smíði kjarnakljúfs í borginni Bushehr í suðurhluta Írans. Ummæli Pútíns hafa vakið litla hrifningu í Bandaríkjunum enda hafa bandarísk stjórnvöld gagnrýnt kjarnorkuáætlun Írana harðlega. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur sakað Írani um að vera að þróa kjarnorkuvopn en írönsk stjórnvöld þvertaka fyrir það. Íranskir ráðamenn segja að kjarnorkuáætlunin snúist um raforkuframleiðslu, ekki vopnaframleiðslu. Rússar ætla að sjá Írönum fyrir kjarnakleyfum efnum en úr þeim er unnin orka í kjarnaklúfum. Bandarísk stjórnvöld hafa áhyggjur af því að þegar kjarnakljúfinn í Bushehr verði kominn í gagnið geti írönsk stjórnvöld hafið framleiðslu á plútóníum sem nota má til vopnaframleiðslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×