Erlent

Dýrt spaug ef flug tefst

Það getur verið þreytandi að bíða tímunum saman á flugvöllum eða jafnvel í flugvélum vegna tafa, en framvegis verður það líka dýrt spaug - fyrir flugfélögin. Nýjar Evrópureglur tóku í dag gildi sem gera ráð fyrir mun hærri greiðslum til farþega sem verða fyrir töfum. Þeir eru sjálfsagt fáir flugfarþegarnir sem aldrei hafa lent í því að bíða eftir flugi sem tafist hefur af einhverjum sökum. Víða á meginlandi Evrópu er það nánast reglan fremur en undantekningin þar sem flugumferð er svo mikil að hvorki flugvellir né flugumsjónarkerfi anna henni almennilega. Fram til þessa hafa bætur vegna tafa verið fremur rýrar, en ekki lengur. Nýjar reglur tóku í dag gildi innan Evrópusambandsins sem hækka bótagreiðslur til farþega vegna tafa til muna. Farþegar sem komast ekki í flug vegna þess að flugvél hefur verið yfirbókuð, eða ef mikil seinkum kemur til af völdum flugfélagsins, fá á milli tuttugu og fimmtíu þúsund krónur, eftir því hversu flugferðin er löng. Tafir vegna veðurs eða verkfalla, til að mynda, eru hins vegar ekki á ábyrgð flugfélaganna. Jacques Barrot, samgöngumálastjóri ESB, segir sambandið fara fram á þetta við öll flugfélög auk þess sem þau hleypi öllum um borð, án mismunar. Ekki eru þó allir ánægðir með þetta. IATA, Alþjóðasamtök flugfélaga, sem og samtök lággjaldaflugfélaga, hafa mótmælt reglugerðinni og segja ljóst að kostnaðinum verði velt yfir á farþegana sem borga þá meira fyrir miðann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×