Erlent

Fengu hundaæðissýkt líffæri

Þrír sjúklingar berjast fyrir lífi sínu í Þýskalandi eftir að í þá voru grædd líffæri úr konu sem reyndist hafa verið með hundaæði. Líffæragjafin lést eftir hjartaáfall á síðasta ári og við rannsókn virtist allt í lagi með líffæri hennar. Því var lífi sex illa haldinna einstaklinga bjargað með því að græða líffærin úr konunni í þá. Þrír líffæraþeganna braggast vel en hinir þrír berjast fyrir lífi sínu. Þeir fengu allir hundaæði í kjölfar líffæragjafarinnar og veikt ónæmiskerfi þeirra er illa í stakk búið að takast á við það ofan á allt annað. Líffæraþegarnir sem um ræðir fengu lungu, nýru og briskirtil úr konunni, sem nú er vitað að hafði verið á Indlandi skömmu áður en að hún lést. Ekki er hins vegar ljóst hvernig hún fékk hundaæði en fleiri dýr en hundar geta borið það í sér. Hundaæði veldur meðal annars hita, miklum krampaköstum, ofsahræðslu, ofskynjunum og dauðadái, sem leitt getur til dauða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×