Erlent

Vilja afsögn ríkisstjórnarinnar

Vaxandi þrýstingur hefur verið á ríkisstjórn Líbanons um að segja af sér. Stjórnin nýtur stuðnings stjórnvalda í Sýrlandi og hefur óánægja í garð hennar aukist eftir að fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Rafik Hariri, var ráðinn af dögum. Talið er að hundruð þúsunda hafi minnst Hariris á götum Líbanons í gær og margar minningarathafnir snerust í gær upp í mótmæli gegn ráðamönnum í Damaskus. Líbönsk dagblöð segja í ritstjórnargreinum sínum í dag að mótmælin jafngildi þjóðaratvæðagreiðslu og niðurstaðan sé ljós: hernaðaríhlutun Sýrlendinga og afskiptum þeirra af stjórnmálum í Líbanon sé hafnað. Málsmetandi menn úr röðum trúar- og stjórnmálaleiðtoga virðast sammála um að tímabært sé að Sýrlendingar hverfi frá Líbanon. Gagnrýni Bandaríkjamanna og Frakka á sýrlensk stjórnvöld virðast kynda undir óánægju Líbana. Einn kristinn leiðtogi sagði að morðið á Hariri, sem var súnní-múslími, væri dæmigert fyrir einræðisstjórnir sem væru vanar að drepa alla gagnrýna umræðu með þessum hætti. Þó að Sýrlendingar séu grunaðir um að hafa skipulagt morðið á Hariri eru engar afgerandi sannanir sem benda til þess. Maður ók bíl upp að bílalest Hariris á mánudaginn var og sprengdi sig í loft upp eins og hryðjuverkamenn gera gjarnan í Írak. Leiðtogar Sýrlands hafa fordæmt morðið á Hariri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×