Lífið

Hætti að reykja fyrir mömmu

Paula Andrea Jónsdóttir fékk heldur fátíða gjöf á 85 ára afmælinu sínu um miðjan janúar. Dóttir hennar, Lísa Pálsdóttir útvarpskona, ákvað nefnilega að gefa móður sinni það að gjöf að hætta að reykja. "Hún hefur alla tíð haft óbeit á reykingum og varð því afskaplega ánægð þegar ég tilkynnti henni þetta," segir Lísa, sem reykti pakka á dag í 38 ár. "Já, ætli þetta hafi ekki verið pakki á dag að meðaltali. Stundum reykti ég hálfan pakka á dag og svo talsvert meira ef ég fór eitthvað að djamma." Lísa tók síðasta reykingadaginn með trukki og svældi í sig tveimur pökkum frá klukkan fjögur um daginn og fram að miðnætti. Í tveimur sígarettupökkum eru fjörutíu sígarettur. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Lísa hættir að reykja en hún segist þó aldrei hafa gert það af einhverri alvöru. En er alvara að baki þessu nú? "Ja, mér finnst ennþá alveg ógeðslega gott að reykja og fer ekkert ofan af því. En þetta er spurning um atvinnutækið; röddina. Ég hef kvefast tvisvar í vetur og orðið helvíti hás og verið lengi að ná mér. En ég veit svo sem ekki hvort það var reykingunum að kenna. Ég á örugglega eftir að verða hás aftur og þá kemur það í ljós." Það að Lísa skyldi hætta að reykja var ekki eina afmælisgjöfin sem Paula Andrea fékk frá börnum sínum. Þau gáfu henni líka kápu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.