Innlent

Líkan til að finna kuml

Fornleifafræðingar hafa gert líkan til að finna út líklega staðsetningu heiðinna grafa. Miklar vonir eru bundnar við að það skili því að heil og óskemmd kuml komist í hendur fornleifafræðinga. Kuml, eða heiðnar grafir, hafa hingað til fundist fyrir tilviljun við uppblástur eða framkvæmdir. Oft og tíðum eru kumlin, sem geta haft að geyma mikilvægar upplýsingar um fortíðina, afar illa farin - ólíkt því sem gerist þegar fornleifafræðingar finna þau. Það hefur þó aðeins gerst í fimm prósent tilvika. Síðustu ár hefur verið reynt að finna aðferðir til að hafa upp á kumlum með því að finna út munstur í sambandi við það hvernig fornmenn ákváðu staðsetninguna. Adolf Friðriksson, forstöðumaður Fornleifastofnunar, segir að menn þykist nú vera miklu nær um það. Kuml séu ýmist alveg rétt við bæi, svolítið fjarri þeim, við landamerki og við fornar þjóðleiðir. Hvers vegna er ekki enn hægt að svara. Notast var við líkanið í Suður-Þingeyjarsýslu og þar fundust þrjú kuml, við Saltvík og Lyngbrekku. Adolf segir þetta hafa mikið að segja, bæði hvað varðar skipulag við leit að varðveislustöðum og fyrir fornleifafræðin sjálf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×