Innlent

Stýrið brotnaði af Dettifossi.

Stýrisblað á Dettifossi, flutningaskipi Eimskipafélagsins, brotnaði af skipinu í fyrrakvöld austur af landinu. Varðskipið Týr kom til aðstoðar seint í fyrrakvöld og tók Dettifoss í tog. Aðstæður voru mjög erfiðar á þessum slóðum vegna hvassviðris og sjógangs. Dráttartaug milli skipanna slitnaði í fyrrakvöld og aftur í gærdag. Það var um klukkan átta á föstudagskvöld þegar forsvarsmenn Eimskips báðu um aðstoð Landhelgisgæslunnar þar sem Dettifoss lét ekki að stjórn. Þá var skipið statt átta sjómílur austur af Eystrahorni en skipið var á leið frá Reykjavík til Eskifjarðar. Um tveimur tímum síðar mætti Týr Dettifossi þar sem skipið rak frá landi. Skipin héldu sjó um átján sjómílur austur af Papey og taug sem tókst að koma í Dettifoss slitnaði skömmu fyrir miðnætti. Varðskipið Ægir kom einnig á staðinn um klukkan hálf ellefu í gærmorgun. Um klukkan hálf þrjú í gærdag lagði Týr af stað með Dettifoss með stefnu á Eskifjörð eftir að hafa komið taug yfir í skipið. Síðdegis slitnaði hún vegna veðurs, en þar voru um 23 til 24 metrar á sekúndu, of vont veður til að reyna að koma línu aftur á milli skipanna. Að sögn manna um borð í Dettifossi var áhöfninni nokkuð brugðið þegar í ljós kom að skipið var stjórnlaust í vondu veðri. Viðmælandi blaðsins sagði líðan áhafnarinnar eftir atvikum. Skemmdir á Dettifossi verða kannaðar á Eskifirði og að því loknu verði tekin ákvörðun um hvar viðgerð fer fram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×