Innlent

Ólgan innan Íslandsbanka

Á annan tug háttsettra starfsmanna hjá Íslandsbanka hefur horfið frá störfum á síðustu mánuðum og hefur þriðjungur þeirra ráðið sig hjá KB banka. Ólga er innan bankans vegna valdabaráttu.  Valdabarátta hefur staðið yfir í Íslandsbanka um langt skeið og varð armur með Bjarna Ármannsson í broddi fylkingar ofan á. Í kjölfarið hurfu margir lykilstarfsmenn bankans á braut. Í lok desember var Jón Þórisson, aðstoðarforstjóri bankans, rekinn úr starfi vegna þess sem var kallað óleysanlegur ágreiningur milli hans og Bjarna Ármannssonar forstjóra. Björn Björnsson aðstoðarforstjóri tilkynnti í gær um uppsögn sína af heilsufarsástæðum. Guðmundur Tómasson framkvæmdastjóri hætti í vikunni en hann var hægri hönd Vals Valssonar, fyrrum bankastjóra. Sölvi Sölvason, lögfræðingur á viðskiptabankasviði, hætti í haust eftir margra ára starf og fór til KB banka.Margrét Gunnarsdóttir, lögfræðingur á sama sviði, er einnig hætt ásamt Guðrúnu Ólafsdóttur. Heba Björnsdóttir forstöðumaður er einnig hætt, Sigurður Nordal réði sig til KB banka, Hulda Dóra Styrmisdóttir framkvæmdastjóri starfar ekki lengur við bankann og það gera ekki heldur Lára Sverrisdóttir, lögfræðingur í lánaeftirliti, sem fór til KB banka, og það gerði Laufey Guðjónsdóttir einnig. Brynja Þorbjörnsdóttir, sem var útibússtjóri á Akranesi, er hætt. Samtals eru þetta að minnsta kosti tólf manns og hefur þriðjungur farið til KB banka. Og sviptingarnar ná einnig inn í dótturfyrirtækið, Sjóvá-Almennar. Þar sagði Kristján Björgvinsson fjármálastjóri upp og einnig Guðmundur Jóhann Jónsson aðstoðarforstjóri í lok september. Ólafur Haukur Jónsson, framkvæmdastjóri Sjóvá-Almennra líftrygginga, dótturfyrirtækis Sjóva-Almennra, og Hilmar Thors aðstoðarframkvæmdastjóri sögðu upp fyrir jól. Einar Sveinsson, formaður bankaráðs Íslandsbanka, segir að það vinni yfir þúsund manns hjá bankanum og það sé ekkert óeðlilegt við það þó það verði mannabreytingar í áhöfninni á jafnstóru fleyi. Ekki náðist í Bjarna Ármannsson í dag. Ýmsar skipulagsbreytingar hafa verið gerðar hjá bankanum, meðal annars var tilkynnt í gær að starfsmannahald yrði nú tímabundið undir stjórn Bjarna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×