Innlent

Ægir kominn á staðinn

Varðskipið Týr lónar enn um 18 sjómílur austur af Papey með bilaðan Dettifoss í togi og kemst hvorki lönd né strönd vegna veðurs. Varðskipið Ægir er komið á vettvang en beðið er eftir að veðrinu sloti og aðstæður batni. Stýrið í Dettifossi bilaði í gærkvöldi þegar skipið var statt út af Lóni, austan við Hornafjörð. Engin hætta var talin á ferðum þar sem skipið rak frá landi en óskað var eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar. Varðskipið Týr var komið skömmu síðar en björgun hefur gengið brösuglega. Fyrsta dráttartaugin slitnaði en þegar búið var að koma nýrri taug á milli skipanna rúmlega fjögur í nótt var orðið það hvasst að Týr réð ekki við að draga skipið. Ríkharður Sverrisson, fyrsti stýrimaður á Dettifossi, segir að haldið verði áfram að reyna að koma skipinu af strandstað sem tekst væntanlega með aðstoð Ægis. Aðspurður segir hann enga hættu vera á ferðum Dettifoss er stærsta skip Eimskipa, um 14 þúsund tonn, en til samanburðar er Týr aðeins um 12 hundruð tonn. Í því suðvestan roki og haugasjó sem er á staðnum þá ræður Týr ekki við mikið meira en að halda í Dettifoss.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×