Innlent

Flugleiðir á stöðugri uppleið

Hlutabréf í Flugleiðum hafa verið á stöðugri uppleið undanfarin þrjú ár og tóku mikið stökk í gær og fyrradag. Baugur er farinn að kaupa sig aftur inn í félagið. Árið 2002 fór gengi hlutabréfa í Flugleiðum niður undir einn og var það rakið til hryðjuverkanna í Bandaríkjunum í september árið áður. Síðan hafa mörg stóru flugfélaganna geispað golunni, eins og til dæmis Svissair, og önnur berjast fyrir lífi sínu, ekki síst í Bandaríkjunum. Hjá Flugleiðum hefur leiðin hins vegar legið nokkuð stöðugt upp á við. Rekstur félagsins hefur gengið vel og að sögn forráðamanna þess hefur staða þess á markaðinum aldrei verið sterkari og vænlegri en í dag. Merki um sóknarhug fyrirtækisins er kaupin á tíu nýjum Boeing-þotum og kaupréttur á fimm öðrum sem tilkynnt var um í vikunni. Þetta varð til þess að gengi hlutabréfa félagsins tók lóðrétt stökk og er núna í kringum fjórtán. Það er engin smáræðis breyting á svo skömmum tíma. Það vakti athygli að Baugur hóf hlutabréfakaup í Flugleiðum í dag en eigendur Baugs seldu meirihluta hlutabréfa sinna í félaginu fyrir aðeins hálfu ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×