Innlent

Sjógangur rýfur hlíðina

MYND/Brynjar Gauti
Sjógangur hefur náð að rjúfa talsvert úr hlíðinni neðan við Óshlíðarveg Bolungarvíkurmegin og varar lögreglan ökumenn stórra bíla við að treysta á kantana sjávarmegin. Ekki er langt síðan bætt var við uppfyllingu á þessu svæði til að verjast sjógangi en sjórinn hefur nú skolað þeirri uppfyllingu í burt og hefur sjórinn ekki gengið svona nærri veginum í mörg ár. Vegagerðin er að undirbúa lagfæringar við veginn en talið er að um átta þúsund rúmmetrar af efni hafi skolast burt þannig að verulegt verk er framundan við að gera veginn öruggan á ný. Óshlíðarvegurinn er eina vegtenging Bolvíkinga við umheiminn og segjast heimamenn vera orðnir þreyttir á þeim hættum og óöryggi í samgöngum sem allt er rakið til Óshlíðarinnar. Þeir benda á að í snjókomu sé hætta á snjóflóðum þar, í leysingum sé hætt við aurskriðum á veginn, í stórrigningum geti vegfarendur búist við grjóthruni og að í sjógangi grafi undan veginum, eins og reyndin sé þessa stundina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×